*

fimmtudagur, 4. mars 2021
Innlent 17. desember 2020 12:18

Hjarðónæmi á seinni hluta næsta árs

Sóttvarnalæknir áætlar að Íslendingar nái ekki góðu hjarðónæmi fyrr en á seinni hluta næsta árs. Fyrsta sending af bóluefni berst 24. desember.

Ritstjórn
Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, gerir ekki ráð fyrir að Íslendingar nái góðu hjarðónæmi fyrr en á seinni hluta næsta árs, þó svo að bólusetningar hefjist strax eftir áramót. Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna, að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins.

„Við höfum tryggt okkur kaup á bóluefni fyrir um 85 þúsund einstaklinga alls en vegna skorts á hráefni hjá framleiðanda seinkar framleiðslunni. Þannig að ljóst er að við munum fá minna bóluefni á næstu mánuðum, en við áætluðum," segir Þórólfur.

Frá því var greint í gær að Íslendingar munu fá færri skamma af bóluefni Pfizer og BioNTech um áramótin en samningar gerðu áður ráð fyrir. Þórólfur gerir ráð fyrir að fá fyrstu sendingu af bóluefni 24. desember. Gert er ráð fyrir að Íslendingar fái bóluefni fyrir 5.000 einstaklinga þá en að næsta sending berist í janúar eða febrúar.