Eftirmaður Róberts Wessman, Sigurður Óli Ólafsson, hefur vissulega staðið í skugganum af honum þó svo að kunnugir hafi vitað að Sigurður hefur einnig gegnt lykilhlutverki í eflingu félagsins á síðustu árum. Þurfti hann að hugsa sig um þegar stærsti eigandi fyrirtækisins bauð honum að stíga fram í sviðsljósið og taka við stýrinu?

„Já, ég þurfti óneitanlega að hugsa mig um. Þetta er mikið ábyrgðarstarf hjá stóru og umsvifamiklu fyrirtæki þannig að það var ósköp eðlilegt að velta fyrir sér hvort maður vildi taka það að sér og hvernig best væri að standa að málum. En ég komst fljótlega að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða áskorun sem ég gæti ekki látið fram hjá mér fara. Ekki aðeins standa viðskiptin í blóma heldur starfar frábært stjórnendateymi hjá fyrirtækinu og ég vissi að með það í brúnni með mér ætti reksturinn að ganga vel.“

„Núna erum við að vinna að áætlunargerð fyrir árið 2009 með öllu því sem henni fylgir. Í ár ræðst fyrirtækið í um 800 markaðssetningar lyfja. Á bak við þessa tölu standa fjölmörg ný lyf, 30-40 talsins, en hvert lyf fer á markað í mörgum löndum. Actavis framleiðir á að giska 650 mismunandi lyf í verksmiðjum sínum og í gangi eru 412 mismunandi þróunarverkefni. Ég er mjög stoltur af hvernig til hefur tekist og hversu öflug þessi starfsemi er, mun öflugri en margir gera sér grein fyrir. Þessum markaðssetningum fylgir geysilegur undirbúningur og þegar menn setja þessa tölu í samhengi sést að það koma að minnsta kosti tvö lyf frá Actavis á markað einhvers staðar í heiminum á hverjum einasta degi ársins. Við verðum að halda vel á spilunum í því sambandi enda höfum við hugfast að nýmarkaðssetningar eru aflið sem knýr vöxt fyrirtækisins um þessar mundir,“ segir Sigurður aðspurður hvaða verkefni séu mest aðkallandi á næstu mánuðum.

______________________________________

Í Viðskiptablaðinu í dag er að finna ítarlegt viðtal við nýjan forstjóra Actavis, Sigurð Óla Ólafsson, þar sem hann ræðir um stöðu félagsins, hugsanlegar yfirtökur og framtíðarsýn og kveðst stefna að því að koma Actavis í röð þriggja stærstu samheitalyfjaframleiðenda heims á næstu árum. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .