Ég ber miklar taugar til hótelsins og finnst verðmætt að halda starfi foreldra minna á hótelinu áfram,“ segir Geirlaug Þorvaldsdóttir, á Hótel Holti, sem kalla mætti ættaróðal fjölskyldunnar.

Geirlaug er ein af þremur börnum Þorvalds Guðmundssonar, jafnan kenndur við Síld og fisk og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Hjónin byggðu Hótel Holt og var það opnað 12. febrúar árið 1965 og vann Geirlaug í móttökunni á sumrin í upphafi, samhliða námi. Eftir að námsárunum sleppti varð nokkurra áratuga hlé á beinni aðkomu Geirlaugar að hótelrekstri. Geirlaug keypti hlut systkina sinna í hótelinu árið 2004, eftir andlát foreldra þeirra og hefur síðan átt hótelið ein. Þegar í ljós hafi komið að systkini hennar ætluðu sér ekki að eiga í hótelinu áfram hafi ekki annað komið til greina en að kaupa þeirra hlut.„Hjarta mitt er hér,“ segir Geirlaug.

Íhugaði að láta stækka hótelið

Geirlaug settist niður með blaðamanni í veislusalnum Þingholti, sem hýst hefur óteljandi veislur fyrir Íslendinga sem og erlend fyrirmenni. Ólafur V Noregskonungur hélt veislu í salnum árið 1988 og Jóakim Danaprins og eiginkona hans, Marie prinsessa, árið 2016. Geirlaug er í stuði og byrjar strax að segja frá arkitektúrnum.

„Gunnar Magnússon arkitekt teiknaði þetta herbergi og smíðaði með sínum smíðameistara,“ segir Geirlaug og bendir á að Hótel Holt hafi verið byggt í þremur áföngum. Það var stækkað árið 1973 og aftur voru gerðar endurbætur á hótelinu árið 1984. Geirlaug segir að hún hafi kannað að láta stækka hótelið þegar hún tók við því. „Þegar ég kaupi hótelið var tvennt í stöðunni. Annað hvort að gera gott hótel betra eða byggja við. Það var að mörgu að huga og margt sem þurfti að bæta. Það má segja að þessi eining, 42 herbergi, sé full lítil. Ég hafði hugsað mér að framlengja hótelið og búa til brú yfir bílaplanið. Það hefði verið svolítið sniðugt. Ég tók ákvörðun um að gera það ekki og þá þýðir ekkert annað að standa með henni. En kannski er ekki of seint að breyta.“

Hóf eigin rekstur eftir sjötugt

Geirlaug varð áttræð í desember en er enn á fullu í rekstrinum og kemur daglega á Hótel Holt. Geirlaug segir að starfslið hótelsins skipti hana mestu máli. „Starfsfólkið, það er auðurinn, ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa svo gott fólk að vinna hérna. Hótelstjóri er Ari Thorlacius og sölu- og markaðsstjóri er Marissa Sigrún Pinal. Svo eru með mér í stjórn Hrönn Greipsdóttir og Eggert Guðmundsson.“

Geirlaug leigði hótelið út fyrstu árin eftir að hún eignaðist það að fullu, en árið 2011 hóf hún að reka hótelið sjálf, þá komin yfir sjötugt. Hún er menntuð leikkona en hefur brugðið sér í ýmis hlutverk í gegnum árin. Hún kenndi erlend tungumál í Menntaskólanum í Hamrahlíð í þrjá áratugi. Hún ber það með sér að þurfa alltaf að hafa nóg að gera. „Ég verð að hafa eitthvað fyrir stafni.“

Nánar er rætt við Geirlaugu í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.