Fyrsti sjúklingurinn hefur hafið þátttöku í þriðja og síðasta fasa prófana deCODE á nýju lyfi sem ætlað er til forvarna við hjartaáföllum, segir í fréttatilkynningu. Prófanirnar fara fram í Bandaríkjunum og reiknað er með að 3400 hjartasjúklingar muni taka þátt í þeim.

?Þetta er mikilvægt skref, bæði fyrir okkur og fyrir lyfjaiðnaðinn almennt, því þetta er í fyrsta sinn sem þekking á líffræðilegum orsökum algengs sjúkdóms sem fengist hefur með erfðarannsóknum skilar nýju lyfi í síðasta fasa lyfjaprófana," segir Kári Stefánsson, forstjóri deCODE.

Kári segir að niðurstöður erfðarannsóknanna verða einnig notaðar til að auka næmi lyfjaprófananna og líkur á að þær skili jákvæðum niðurstöðum. Þetta er gert með því að prófa lyfið meðal einstaklinga sem er í mestri hættu á að fá hjartaáföll vegna frávika í því lífefnafræðilega ferli sem lyfið verkar á.

?Markmið okkar er að þróa og markaðssetja ný lyf við algengum sjúkdómum á grunni uppgötvana á sviði erfðafræði og mér finnst vel við hæfi að fyrsta lyfið sem við tökum inn í síðasta fasa lyfjaprófana sé ætlað til forvarna við algengustu dánarorsök á Vesturlöndum," sagði segir Kári.

Prófanirnar munu einkum beinast að svörtum hjartasjúklingum með erfðabreytileika sem vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa sýnt fram á að eykur verulega hættu þeirra á hjartaáföllum. Þátttakendur munu taka 500 mg af lyfinu eða lyfleysu tvisvar á dag.

Kannað verður hvort færri hjartaáföll, heilablóðföll, innlagnir vegna hjartakveisu eða bráðrar kransæðavíkkunar verði meðal þeirra sem taka lyfið en þeirra sem fá lyfleysu. Lengd lyfjaprófananna mun ráðast af fjölda sjúkdómstilfella meðal þátttakenda.

Bráðbirgðagreining verður gerð á niðurstöðum þegar prófanirnar verða hálfnaðar. Prófanirnar fara fram samkvæmt sérstöku samkomulagi (e. Special Protocol Assessment, SPA) við Bandaríska lyfjaeftirlitið (FDA).