Actavis hefur sett samheitalyfið Valpress (valsartan) á markað á Íslandi. Þetta er fyrsta samheitalyf hjartalyfsins Diovan sem fáanlegt er á Norðurlöndunum, en víðast hvar í Vestur-Evrópu verður samheitalyf ekki fáanlegt fyrr en í fyrsta lagi árið 2011.

Í fréttatilkynningu frá Actavis segir að Valpress (valsartan) sé notað við háþrýstingi, nýlegu hjartadrepi og hjartabilun. Valpress frá Actavis er framleitt í 80 mg og 160 mg töflum til inntöku. Lyfið, sem er samheitalyf Diovan frá lyfjafyrirtækinu Novartis, er þróað af Actavis og framleitt í lyfjaverksmiðju fyrirtækisins á Möltu.

Valpress er þriðja samheitalyfið sem Actavis setur á markað á Íslandi á einum mánuði. Mígrenilyfið Sumacta (sumatriptan) og geðlyfið Míron Smelt (mirtazapin) munnlausnartöflur komu á markað í nóvember. Þar var einnig um að ræða fyrstu samheitalyf á Íslandsmarkaði, og eru þau bæði þróuð hjá Actavis á Íslandi.

Í tilkynningunni er haft eftir Ólöfu Þórhallsdóttur sviðastjóra Sölu- og markaðssviða Actavis: "Samheitalyf koma oft á markað hér á landi löngu áður en þau eru fáanleg í öðrum Evrópulöndum, jafnvel mörgum árum fyrr. Þegar samheitalyf kemur á markað lækkar verðið. Það á við hér á landi eins og annarsstaðar. Í þessu tilfelli nemur verðlækkunin tæplega fjórðungi, miðað við það verð sem fyrir var, en sumatriptan og mirtazapin lækkuðu um meira en þriðjung þegar samheitalyfin frá Actavis komu á markaðinn á dögunum."