Örninn Hjól ehf., félag utan um rekstur samnefndra hjóla- og golfverslana auk barnavöruverslunarinnar FÍFA, hagnaðist um 271 milljón króna á síðasta ári og fimmfaldaðist hagnaðurinn frá fyrra ári. Rekstrartekjur verslunarinnar jukust að sama skapi verulega, úr ríflega 1,1 milljarði króna í ríflega 1,8 milljarða. Rekstrarkostnaður nam tæplega 1,5 milljörðum króna og rekstrarhagnaður 356 milljónum króna.

Jón Pétur Jónsson, eigandi og framkvæmdastjóri Arnarins, sem hefur rekið Örninn frá árinu 1990, kveðst aldrei hafa upplifað annað eins. Heimsfaraldurinn hafi stóraukið söluna, enda þegar heil þjóð sé nánast lokuð inni þurfi hún á afþreyingu og hreyfingu að halda. „Vörurnar sem við seljum eru einmitt að mestu leyti útvistarvörur í hjóla- og golfbúðunum. Svo höfðu innanlandsferðalög fólks einnig í för með sér aukna sölu á barnabílstólum, kerrum og fleiri vörum."

Lagerinn tómur

Jón Pétur segir að um miðjan maí í fyrra hafi farið að bera á vöruskorti. „Í mars og byrjun apríl töldum við okkur hafa pantað nóg af hjólum til að eiga góðan lager. Þegar það fóru að myndast langar raðir, sem náðu nánast hringinn í kringum hjólaverslunina, fóru að renna á mann tvær grímur." Upp úr miðjum apríl hafi því allt verið sett á fullt til að reyna að fá fleiri sendingar af hjólum til landsins.

„Við náðum sem betur fer að fá senda nokkuð marga gáma í viðbót frá okkar birgjum úti í Evrópu. Það varð til þess að við áttum til hjól meira og minna allt síðasta ár og fram til 10. apríl á þessu ári. Frá þeim tíma höfum við ekki átt nein hjól inni á lager en við eigum þó von á sendingu núna í lok maí. Ég tel okkur nú vera með góðan og stóran lager og bjóst því aldrei við að upplifa það að sjá lagerinn okkar tómann."

Jón Pétur segir að hann og samstarfsfólk sitt hafi átt í fullu fangi við að eiga í nánast daglegum samskiptum við umheiminn til að reyna að koma vörum til landsins. „Trek vöruhúsið sem við verslum mikið við er vanalega með um 200-300 þúsund hjól á lager fyrir Evrópumarkað en í dag stendur það tómt og allt sem kemur inn fer strax út." Hann reiknar þó með að hlutirnir fari að færast hægt og rólega í fyrra form er ferða- og samkomutakmörkunum verður aflétt víða um heim.

Stefnir í svipaða eða betri sölu

Jón Pétur segir að þó að þessi auknu umsvif séu vissulega gleðiefni, vilji hann ekki fara með fyrirtækið í gegnum slíkt ástand mikið lengur. „Þó að þetta sé jákvætt vandamál, erum við sérverslun sem leggur áherslu á góða þjónustu og upplýsingagjöf til viðskiptavina. Í fyrra vorum við mest í því að afgreiða viðskiptavini og minna í að þjónusta þá, því það var svo brjálað að gera. Það er auðvitað alltaf gaman að selja vel en við erum ekki ánægð þegar við náum ekki að þjónusta viðskiptavini eins vel og við viljum. Fyrirtækið er ekki byggt upp fyrir svona mikinn snúning en við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta ástand er ekki komið til að vera."

Hann hælir starfsfólki sínu á hvert reipi. „Ég hafði miklar áhyggjur af því að starfsfólkið færi hreinlega yfir um vegna álagsins, en svo fór blessunarlega ekki. Starfsfólkið býr yfir mikilli reynslu og stendur sína plikt með miklum sóma."

Jón Pétur segir stefna í að sala yfirstandandi árs verði svipuð og jafnvel enn betri en í fyrra. „Salan hingað til á árinu er á svipuðu róli og jafnvel meiri en á sama tíma í fyrra, þannig að þessi „hávaði" er kannski ekki alveg búinn," segir hann kíminn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .