Íslenska hjólafyrirtækið Lauf Forks er að færa út kvíarnar, en fyrirtækið  hyggst opna nýja starfsstöð í Bentonville, sem er í Arkansas. Stefnt er að opnun hennar síðar á þessu ári.  Fyrirtækið framleiðir hjólagaffla og ýmsar fleiri vörur tengdar hjólreiðum, en árið 2016 hóf fyrirtækið sölu á sínu fyrsta hjóli. Umrætt hjól er malarhjólið (e. gravel bike) True Grit og hefur það hlotið mjög góða dóma.

Áðurnefnd starfsstöð  verður fyrsta erlenda starfsstöð fyrirtækisins. Mikið hefur verið lagt í að byggja upp hjólaiðnað í Bentonville og hafa erfingjar  Walmart auðæfanna spilað lykilhlutverk í að byggja upp hjólabransann í bænum. Sú staðreynd, auk góðrar landfræðilegrar legu, varð þess valdandi að starfsstöðin verður á þessum slóðum.

„Það  er gífurlegur fjöldi sem býr á þessum slóðum og mörg fylkin þar eru kaupsterk, má þar helst nefna Texas. Við einblínum á malarhjólamarkað, sem er ört vaxandi markaður. Þessi hjól henta mjög vel fyrir aðstæður þarna og njóta mikilla vinsælda," segir Benedikt Skúlason, framkvæmdastjóri og annar af stofnendum Lauf Forks. „Það má segja að þetta svæði sé svolítið svelt af hjólamerkjum. Því lítum við á það sem gott tækifæri að koma okkur fyrir á þessum slóðum. Malarhjólamarkaðurinn hefur vaxið gífurlega undanfarin ár og eru malarhjólin að auka markaðshlutdeild sína verulega, þá mest á kostnað götuhjólanna," segir Guðberg Björnsson, yfirhönnuður og hinn stofnandi Lauf Forks.

Malarhjól að taka yfir götuhjólin

Benedikt segir að greiningaraðilar á hjólamarkaði í Bandaríkjunum hafi margir tekið svo djúpt í árina að götuhjólin séu einfaldlega búin og malarhjólin séu í raun hin nýju götuhjól.

„Þetta er að verða risastór markaður og við erum með vöru í höndunum sem hefur fengið bestu dómana á malarhjólamarkaðnum. Við sjáum þessa nýju starfsstöð því sem lykilhlekk í því að styðja við áframhaldandi vöxt fyrirtækisins. Bandaríkin eru leiðandi markaðssvæði fyrir malarhjól og við höfum hingað til verið að fjarstýra  allri starfseminni héðan frá Íslandi, en til þess að ná enn betri stöðu á markaðnum þá teljum við nauðsynlegt að vera með starfsstöð á staðnum," segir Benedikt. Að sögn Guðbergs er einnig gífurlega mikilvægt að vera á staðnum til þess að vera með puttann á púlsinum og fylgjast náið með þeirri þróun sem á sér stað á markaðnum. Það geri fyrirtækinu kleift að bregðast hraðar við breytingum innan markaðarins hverju sinni. Auk þess sé mun auðveldara fyrir  fyrirtækið að vera sýnilegt á hinum ýmsu malarhjólaviðburðum þegar það er með aðsetur í Bandaríkjunum.

„Við ætlum að færa hluta starfseminnar hér heima yfir til Bandaríkjanna. Einhverjir starfsmenn munu flytjast alfarið þangað og aðrir munu flakka á milli Íslands og Bandaríkjanna," segir Benedikt.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .