Bandaríska fyrirtækið Zwift sem nýtir þrívíddartækni til að gera þeim sem æfa hlaup og hjól innanhúss kleift að upplifa sig utandyra í raunheimi, með þrívíddar og skjátækni er nú metið á 1 milljarð dala, eða sem samsvarar 136 milljörðum íslenskra króna í kjölfar vel heppnaðs hlutafjárútboðs. Meðal fjárfesta í félaginu sem tóku þátt í útboðinu er félag Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Fjármagnið á að nýta til að fara af stað með eigin framleiðslu á æfingjahjólum og snjallbúnaði en hingað til hafa notendur nýtt æfingagrunn félagsins á búnaði frá fyrirtækjum eins og Elite og Wahoo. Hlauparar munu þó áfram nota appið frá Zwift með eigin hlaupabrettum.

Félagið sem staðsett er í Kaliforníu og er með 350 starfsmenn safnaði 450 milljón dölum, andvirði tæplega 61,2 milljarða íslenskra króna í hlutafjárútboðinu fyrir minnihluta í félaginu. Í heildina hefur félagið nú safnað 620 milljón dölum, samtals andvirði nærri 84,3 milljarða íslenskra króna.

Björgólfur Thor meðal fyrstu fjárfesta

Meðal hluthafa sem bættust í eigendahópinn nú eru Alexa sjóður Amazon og Zone 5 Ventures sem er sérhæfður fjárfestingarhópur um hjólabúnað. Aðrir þátttakendur sem voru fyrir í hluthafahópnum eru Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thor Björgólfssonar, Highland Europe, Causaway Media og True.

Síðan félagið var stofnað árið 2015 hafa 2,5 milljón manns skráð sig til notkunar á kerfinu sem lýst hefur verið sem samfélagsmiðil að hluta, að hluta eins og einkaþjálfari og loks að hluta eins og tölvuleik.

Þannig er app og tölvuforrit félagsins sagt heppilegt bæði fyrir þá sem æfa í frítíma sínum sem og þá sem nota búnaðinn til sérhæfðari þjálfunar, en félagið bauð til að mynda upp á að hægt væri að hjóla heima við í Tour de France keppninni í júlí síðastliðnum.