Sigurður Kári Tryggvason lögmaður hefur verið ráðinn til starfa hjá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans en hann starfaði áður hjá bankanum á árunum 2009-2011 við lögfræðiráðgjöf. Á þeim tíma stundaði hann lögfræðinám við Háskóla Íslands. Síðan hefur hann farið víða og meðal annars starfað hjá lögmannsstofunni LEX og Almenna lífeyrissjóðnum og verið í framhaldsnámi í Duke-háskólanum.

Sigurður segist alltaf hafa kunnað vel við sig hjá Landsbankanum en spurður um muninn á því að vinna við fyrirtækjaráðgjöf bankans og hjá lögfræðisviðinu svarar Sigurður þessu: „Í lögfræðiráðgjöfinni ertu að sinna þjónustu til ákveðinna deilda eða bankans í heild og ert því að fá verkefni frá mismunandi sviðum. Hins vegar í fyrirtækjaráðgjöfinni fæ ég að sinna lögfræðihliðinni á hverju verkefni fyrir sig og er þar af leiðandi í sérhæfðari starfi. Það hentar mér mjög vel þar sem ég fæ að einblína meira á þá hluti sem ég hef mikinn áhuga á eins og samningsgerð, verðbréfamarkaðsrétti og verkefnum tengdum félagarétti.“

Sigurður segist njóta góðs af þeirri sérhæfðu þekkingu sem hann hefur öðlast á meðan hann starfaði utan bankans og þá sérstaklega reynslunni frá Almenna lífeyrissjóðnum. „Það er mjög spennandi að hafa starfað innan lífeyriskerfisins, sem fáir lögmenn hafa gert og er mjög flókin starfsemi. Síðan fæ ég að koma í fyrirtækjaráðgjöfina hjá Landsbankanum þar sem ég get nýtt þá þekkingu sem ég hef aflað mér á fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóðanna í þeim verkefnum sem ég mun taka þátt í innan fyrirtækjaráðgjafar. Þessi aukna starfsreynsla sem ég hef öðlast síðan ég starfaði síðast hjá bankanum mun því nýtast mér mjög vel.“

Ásamt því að leggja stund á lögfræði hefur Sigurður verulega gaman af því að hjóla en það er áhugamál sem hann deilir með konu sinni, Guðrún Söndru Berndsen Björnsdóttur. „Hjólaferðir eru nýju skíðaferðirnar en fólk er gjarnan að fara til Ítalíu. Ég hef reyndar ekki enn farið en það er algjörlega á stefnuskránni með konunni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.