*

þriðjudagur, 25. júní 2019
Fólk 17. mars 2019 19:22

Hjólagarpur með blátt hjarta

María Björg Ágústsdóttir er nýr deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Íslandssjóðum.

Sveinn Ólafur Melsted
Nýr deildarstjóri viðskiptaþróunar hjá Íslandssjóðum, María Björg Ágústsdóttir, segir að sín helstu áhugamál tengist útivist.
Haraldur Guðjónsson

María Björg Ágústsdóttir hefur hafið störf hjá Íslandssjóðum þar sem hún stýrir viðskiptaþróun félagsins. Hún sinnir einnig starfi fjármálastjóra 105 Miðborgar slhf., sem nú reisir íbúðir og skrifstofuhúsnæði á Kirkjusandsreit auk þess að gegna hlutverki framkvæmdastjóra fasteignafélagsins FAST-1 slhf. María finnur sig vel í nýja starfinu.

„Hópurinn hjá Íslandssjóðum er frábær og samstarfið innan hópsins er framúrskarandi. Starfsandinn er einnig mjög góður, sem auðveldar aðlögun nýs starfsfólks. Það er einnig ótrúlega skemmtilegt að fá að fylgjast með þessari uppbyggingu sem er í gangi á Kirkjusandi. Þetta er mjög flott verkefni og það verður spennandi að sjá útkomuna," segir hún.

María segir að námsárin í Bandaríkjunum, þar sem hún stundaði nám við hinn virta Harvard háskóla, hafi verið sérstaklega ánægjuleg.

„Það er mikill stuðningur í kringum mann og hægt er að vera í beinum samskiptum við prófessorana, sem búa yfir gífurlegri reynslu og þekkingu. Þeir eru mjög almennilegir og góðir í samskiptum. Ég gæti hreinlega ekki mælt meira með þessum skóla."

Knattspyrna hefur skipað stóran sess í lífi Maríu en hún reyndi meðal annars fyrir sér í atvinnumennsku í Svíþjóð og var partur af íslenska landsliðinu í hátt í áratug. Eftir að hafa lagt skóna á hilluna hefur María verið áfram viðriðin knattspyrnuna og hefur hún verið viðloðandi knattspyrnudeildina hjá Val.

„Ég er þakklát fyrir það sem ég upplifði í gegnum knattspyrnuna og vildi ég því reyna að gefa örlítið til baka, meðal annars með því að vera í kvennaráði félagsins. Nokkrar af mínum gömlu liðsfélögum eru ennþá að spila með Val og ég átti mín bestu ár á ferlinum hjá félaginu. Ég er þó með blátt Stjörnuhjarta, enda fædd og uppalin í Garðabænum," segir María. Hún býr í dag á æskuslóðunum í Garðabæ ásamt dætrum sínum tveimur, sem eru fjögurra og sex ára gamlar.

María segir að sín helstu áhugamál í dag tengist útivist. „Ég er í áhugamannahópi sem fer saman í fjallahjólaferðir, en þessi sami hópur fer einnig saman á fjallaskíði. Þetta er flottur og kröftugur hópur sem hjólar, skíðar og labbar upp á fjöll. Hópurinn fer reglulega saman í útivistarferðir, bæði hér á Íslandi sem og erlendis. Síðustu mánuði hefur þessi hópur farið saman í tvær utanlandsferðir, eina hjólaferð og eina skíðaferð, sem ég komst því miður ekki með í. En ég sé fyrir mér að ferðast með hópnum erlendis í framtíðinni og vonast til að komast með í næstu ferð," segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is