Leifur Geir Hafsteinsson, nýr mannauðsstjóri Völku, segir að nýja starfið leggist frábærlega í sig.

„Mér þykir Valka vera mjög spennandi fyrirtæki, þessi blanda af fiskvinnslu og hátækni er frábær. Það er rosalega fjölbreyttur og flottur starfsmannahópur sem vinnur hérna. Við höfum verið að vaxa ansi hratt undanfarin ár og veltan snaraukist ár frá ári. Til marks um það áætlum við að starfsmannafjöldinn muni allt að tvöfaldast frá upphafi árs 2018 til loka ársins 2019. Það er því nóg um að vera hjá okkur og vinnustaðurinn er mjög kröftugur og framsækinn. Ég hef verið mikið í kringum íþróttir og þar gengur allt út á það að byggja upp góðan anda og sterka liðsheild, þar sem fólk setur hag heildarinnar í fyrsta sætið fremur en sjálft sig. Þessi sterka liðsheild er til staðar hjá Völku og ég tel mikilvægt fyrir fyrirtækið að það haldi áfram að finna fólk sem hefur þetta að leiðarljósi. Það er svo mitt hlutverk að tryggja að liðsheildin haldist eins góð og hún er núna."

Leifur er giftur Jónínu Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra Gáska sjúkraþjálfunar, og saman eiga þau fjögur börn á aldursbilinu 7 til 27 ára. Hann er fæddur og uppalinn Eyjamaður og lék hann knattspyrnu með meistaraflokki ÍBV. Hann var meðal annars partur af Íslandsmeistaraliði ÍBV sumarið 1997. Þar að auki samdi Leifur, sem er mikill gítaráhugamaður, stuðningsmannalag ÍBV - Komum fagnandi, sem er eitt af þeim lögum sem tekin eru í brekkusöngnum fræga á Þjóðhátíð og er því vel þekkt meðal þjóðhátíðargesta.

Að sögn Leifs eru hjólreiðar hans helsta áhugamál þessa dagana. „Ég fékk götuhjólreiða bakteríuna, eins og svo margir aðrir, fyrir nokkrum árum síðan. Mér þykir einnig skemmtilegt í crossfit, golfi og svo spilaði ég lengi fótbolta. Ég hef yfirleitt tekið fyrir eina íþrótt í einu sem ég kryf og núna eru það hjólreiðarnar.

Árið 2017 hafði styrktaraðili samband við mig og bauð mér að vera liðsstjóri í liði sem verið var að setja á fót, en liðið var sett saman af áhugahjólreiðafólki. Liðið hét Team Top Con. Það voru tólf manns í liðinu, sex konur og sex karlar, og við kepptum eins og atvinnumenn sumarið 2017. Við tókum meðal annars þátt í Íslandsmóti og WOW Cyclothoninu, sem var ótrúlega skemmtilegt. Svo hef ég einnig verið að fara til útlanda sem hjólaleiðsögumaður. Þar að auki tók ég í fyrra þátt í góðgerðaverkefni sem heitir Team Rynkeby. Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni þar sem fimmtíu manna hópur hjólar saman frá Danmörku til Parísar og safnar fé til styrktar krabbameinssjúkum börnum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .