*

fimmtudagur, 24. september 2020
Fólk 24. febrúar 2019 19:01

Hjólandi nýbakaður afi

Jón Birgir Gunnarsson er nýr framkvæmdastjóri Gluggasmiðjunnar.

Sveinn Ólafur Melsted
Jón Birgir Gunnarsson er mikill hjólreiðagarpur og hyggst hann meðal annars taka þátt í Bláa lóns áskoruninni næsta sumar.
Haraldur Guðjónsson

Jón Birgir Gunnarsson, nýr framkvæmdastjóri Gluggasmiðjunnar, kveðst spenntur fyrir nýja starfinu. „Það er gaman að sjá hvað það býr góður grunnur og þekking í fyrirtækinu. Við starfsmenn fyrirtækisins teljum það eiga mikið inni og það er mikill hugur í fólki að gera þetta rótgróna fyrirtæki enn betra. Starfsmennirnir búa yfir gífurlegri þekkingu og reynslu, og ég tel að við höfum allt til brunns að bera til þess að vera besta fyrirtækið í glugga- og glergeiranum hér á Íslandi."

„Ég hef verið stjórnandi í fyrirtækjum eins og Skaginn 3X, Controlant og Marel. Ef það er eitthvað eitt sem ég hef alltaf verið að gera, þá er það að koma á góðu flæði í framleiðslu. Ég hef unnið með miklum fjölda fólks um allan heim í kringum það. Vörur Gluggasmiðjunnar búa yfir framúrskarandi gæðum og starfsfólk hefur mikla þekkingu á íslenskum aðstæðum. Ég tel því gott að samtvinna þessa þekkingu mína og fyrirtækisins, til þess að koma á góðu verkflæði, gæðum og afhendingaröryggi," segir Jón Birgir.

Þessa daganna eru hjólreiðar helsta áhugamál Jóns Birgis.

„Mér finnst mjög gaman að hjóla. Ég hef mikið verið að hjóla inni í vetur. Það sem er gaman við það að puða við að hjóla innandyra er að þá verður svo miklu skemmtilegra að hjóla úti á sumrin. Það er betra að pína sig inni og njóta þess svo að vera úti á sumrin. Ég og konan mín höfum mikið verið að ferðast til útlanda í hjólaferðir. Þetta er mjög skemmtileg leið til þess að kynnast þeim stöðum sem maður heimsækir hverju sinni." Í næsta mánuði eru þau hjónin svo á leið til Kanaríeyja með hjólahópi. „Það má segja að maður sé formlega orðinn miðaldra þegar maður fer til Kanaríeyja," segir Jón Birgir kíminn.

Næsta sumar sumar hyggst Jón Birgir svo taka þátt í hjólreiðaviðburðinum Vätternrundan, sem fer fram í Svíþjóð. „Á þessum viðburði hjóla um 25 þúsund manns hring í kringum vatnið Vättern á einum degi, en hringurinn er samtals 300 km. Ég ætla einnig að taka þátt í Bláa lóns áskoruninni, og það má því segja að það sé nóg framundan," segir hann.

Að sögn Jóns Birgis er þó eitt sem stendur upp úr og veitir honum sérstaklega mikla ánægju þessa dagana, en fyrir stuttu síðan eignaðist hann sitt fyrsta barnabarn. „Dóttir mín og tengdasonur búa í sama húsi og við, því fæ ég reglulega að heimsækja nýjasta fjölskyldumeðliminn og spilla barnabarninu. Það skemmir heldur ekki fyrir að hann heitir Jón Trausti í höfuðið á mér og pabba mínum heitnum. Það er mjög skemmtilegt að vera orðinn afi og ég nýt þess hlutverks í botn."

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.