*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 11. desember 2018 13:13

Hjólastólasessan Zetan sigrar í MeMa

Lið frá Tækniskólanum bar sigur úr býtum í nýsköpunarhraðli framhaldsskóla sem haldinn var í fyrsta sinn í ár.

Ritstjórn
Teymi Tækniskólans: Katrín Eva Hafsteinsdóttir, Hrafnhildur Ósk Ásmundsdóttir, Róbert Orri Gunnarsson og Svavar Már Harðarson
Aðsend mynd

Uppblásanleg sessa fyrir hjólastólanotendur sem kallast Zetan, hlaut fyrstu verðlaun í nýsköpunarhraðlinum MeMa - Mennta Maskína, en nýsköpunarkeppnin MeMa eða Menntamaskína var haldin í fyrsta sinn í ár.

Að hraðlinum standa framhaldsskólarnir, Fab Lab Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Hver skóli sendi inn hugmynd sem á að leysa áskorun á sviði heilsu og velferðar.

Tækniskólinn bar sigur úr býtum með Zetuna, sem er sessa sem er forrituð til að geta breytt lögun sinni. Þannig getur sessan aukið blóðflæði til líkamans hjá þeim sem sitja lengi og minkar þannig hættu á legusárum. Teymi Tækniskólans hlaut eina milljón króna í þróunarstyrk frá MND-félaginu og mun auk þess njóta leiðsagnar Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands í næstu skrefum.

Fengu aðgang að Fab Lab Reykjavík

Nýsköpunarhraðallinn MeMa notast við útfærslu af hönnunarsprettum þar sem stuðst er við lausnaleit og innsýn notenda til að fá góðar hugmyndir segir í fréttatilkynningu um málið.

Auk þess er stuðst við tæknispretti þar sem hugmynd er útfærð, prófuð með notendum og þróuð áfram og fengu teymin aðgang að Fab Lab Reykjavík og leiðsögn frá sérfræðingum í stafrænni framleiðslutækni. Að lokum bjuggu teymin til virka frumgerð sem hægt var að kynna fyrir dómnefnd.

MH, FB og Verzló einnig í úrslit

Fjögur teymi komust í úrslit en það voru teymi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Verslunarskóla Íslands og Tækniskólanum. Í keppninni var lögð áhersla á heilsu- og velferðartengda tækni með tilvísan í heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Teymin unnu að frumgerð hugmyndar sinnar undir handleiðslu Fab Lab Reykjavík og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Fyrst var farið í gegnum hönnunarsprett, síðan var útbúin frumgerð sem var prófuð, rannsökuð og þróuð áfram. Öll teymin fjögur sem komust í úrslit, fá leiðsögn frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands við að koma hugmynd sinni á markað.

Dómnefnd var að þessu sinni skipuð Guðjóni Sigurðssyni, formanni MND félagsins, Ósk Sigurðardóttur, stofnanda TravAble, Eyjólfi Eyjólfssyni, verkefnastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar og Ragnheiði Magnúsdóttur, forstöðumanni viðhaldsþjónustu hjá Veitum.