Landinn virðist um þessar mundir sólginn í hjólhýsi, húsbíla og tjaldvagna ef marka má sölutölur úr ársreikningi Víkurverks fyrir árið 2017 en fyrirtækið seldi vörur fyrir rúman milljarð króna. Rekstrartekjur félagsins námu 1.067 milljónum króna sem er tæplega 200 milljóna króna aukning milli ára eða tæplega 23%. Hagnaður félagsins nam rétt tæpum 50 milljónum króna eftir skatta og jókst um tæpar 11 milljónir á milli ára.

Handbært fé í árslok nam 194 þúsundum króna og dróst saman um 7,6 milljónir miðað við lok síðasta árs. Eignir félagsins námu í heildina tæplega 349 milljónum króna og jukust um ríflega 69 milljónir. Eigið fé nam 132 milljónum og jókst um 50 milljónir á milli ára. Þá jukust skuldir um 19 milljónir og námu 216 milljónum króna. Eiginfjárhlutfallið var því 37,8%.