Hjördís Árnadóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Innri og ytri samskiptum Actavis Group og tekur til starfa í þessum mánuði, segir í fréttatilkynningu frá Actavis.

Hjördís mun vinna að ímyndarmálum félagsins á Íslandi og erlendis auk þess að bera ábyrgð á vefsíðum og útgáfu ýmiss konar kynningarefnis félagsins, segir í tilkynningunni.

Hjördís er fréttamaður að mennt, með BA-próf í ljósvakamiðlun frá University of Southern California í Los Angeles í Bandaríkjunum. Þá er hún menntaður íþróttakennari frá Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni.

Um þessar mundir er Hjördís í meistaranámi við Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum með áherslu á alþjóðaviðskipti og fjölmenningu. Síðustu ár hefur Hjördís unnið hjá IMG. Þar hefur hún haft umsjón með starfsþróun og þekkingarmiðlun innan fyrirtækisins, umsjón með vefsvæðum IMG og annast ritstjórn á útgefnu efni.

Hjördís var um árabil íþróttafréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV. Hjördís var fyrsta íslenska konan til að starfa sem íþróttafréttamaður í fullu starfi og sú eina til þessa dags til að eiga sæti í stjórn Samtaka íþróttafréttamanna. Hún var flugfreyja hjá Flugfélaginu Atlanta frá 1996 til 2003.