Rúmlega 20% hlutur í Hampiðjunni hefur á síðustu mánuðum skipt um hendur. Samhliða hefur markaðsvirði félagsins ríflega tvöfaldast en Hampiðjan er skráð á First North markaðinum. Stærstur nýrra eigenda er Hjörleifur Jakobsson, fyrrum forstjóri félagsins. Félagið Feier ehf., sem er í eigu hans og Hjördísar Ásberg eiginkonu hans, á í dag um 13,7% í Hampiðjunni og er þriðji stærsti eigandi félagsins.

Á þessu ári hafa bæði Landsbankinn og Bank Nordic selt hvor um sig 11% hlut í Hampiðjunni. Eigendabreytingar hafa því orðið á rúmlega fimmtungshlut. „Ég hef alltaf haft mikla trú á þessu fyrirtæki og þekki það ágætlega,“ segir Hjörleifur þegar hann er spurður um fjárfestinguna. Hann keypti 11% hlut beint af Bank Nordic og síðar tæplega 3% hlut til viðbótar í útboði Landsbankans. Hjörleifur segir að hann líti á kaupin á hlut í Hampiðjunni sem langtímafjárfestingu. „Ég þekki nokkuð vel til félagsins, stjórnenda þess og eigenda,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.