„Ég er búinn að standa vaktina hjá mjög skemmtilegu fyrirtæki en í krefjandi starfi í 12 ár. Núna vil ég breyta til og ætla að byrja á því að lifa lífinu aðeins hægar,“ segir Hjörleifur Pálsson, fjármálastjóri stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Hann hættir hjá Össuri um þarnæstu mánaðamót og hefur Sveinn Sölvason verið ráðinn til að taka við starfi hans.

Hjörleifur segir í samtali við vb.is að hann hafi ekki ákveðið hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur eftir að hann hættir hjá Össuri. „Nei, ég er ekki búinn að því. Ég ætla bara að sjá hvað lífið býður upp á. Ég er búinn að koma mér í þá stöðu að ég get leyft mér það,“ segir hann og leggur áherslu á að hann skilji við mjög góða stöðu. Gott fólk hjá fjármáladeild Össurar sé fyrir löngu tilbúið til að taka við.

„Það eru margir sem hugsa svipað og ég en láta ekki reyna á það. Og nú ætla ég að gera það,“ segir Hjörleifur.

Með tæpar sjö milljónir í mánaðarlaun

Hjörleifur er 49 ára. Hann var með launahæstu stjórnendum stoðtækjafyrirtækisins í fyrra samkvæmt síðasta uppgjöri. Laun hans námu 470 þúsund dölum í fyrra. Það gera 60 milljónir króna, að meðaltali fimm milljónir á mánuði. Hlunnindi og aðrar greiðslur upp á 157 þúsund dali bættust við launin og námu heildarlaun hans því 627 þúsund dölum, jafnvirði 80 milljóna króna. Það gera tæpar 6,7 milljónir króna í mánaðarlaun.