Hjörleifur Jakobsson, fjárfestir og fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi , ásamt eiginkonu sinni, Hjördísi Ásberg, hafa eignast rúmlega 3,3 prósenta hlut í Kviku banka. Frá þessu greinir Fréttablaðið . Seljandi hlutabréfanna er eignarhaldsfélagið Brimgarðar. Fyrir viðskiptin voru Brimgarðar næst stærsti hluthafi bankans með 8,3 prósent hlut.

Eignarhlutur Hjörleifs og Hjördísar er í gegnum safnreikning hjá Virðingu en eftir kaupin eru þau meðal tíu stærstu eigendum bankans. Hjörleifur er stjórnarformaður Öryggismiðstöðvarinnar og bílaumboðsins Öskju var lengi vel einn helsti samstarfsmaður Ólafs Ólafssonar, athafnamanns, og stýrði þá fjárfestingafélaginu Kili sem var stór hluthafi í Kaupþingi.

Ekki er hægt að fullyrða um hvað bréfinu voru keypt á en Fréttablaðið tekur mið af því þegar tryggingafélagið VÍS keypti um 22 prósenta hlut í bankanum fyrir 5,4 krónur á hlut, og þá er hægt að áætla að kaupverðið hafi verið rúmlega 250 milljónir króna. Hjónin hafa komið af ýmsum fjárfestingum upp á síðkastið, til að mynda að fjármögnun lúxushótelsins við Hörpu. Áður var Hjörleifur forstjóri Hampiðjunnar og Olíufélagsins Esso.

Hjörleifur Jakobsson
Hjörleifur Jakobsson
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)