*

laugardagur, 8. maí 2021
Fólk 26. febrúar 2020 13:23

Hjörvar ráðinn á ný til Stöðvar 2 Sport

Knattspyrnuspekingurinn Hjörvar Hafliðason hefur snúið aftur til starfa hjá Stöð 2 Sport.

Ritstjórn
Hjörvar Hafliðason.
Haraldur Guðjónsson

Knattspyrnuspekingurinn Hjörvar Hafliðason hefur snúið aftur til starfa hjá Stöð 2 Sport. Vísir greinir frá þessu og segir í frétt miðilsins að Hjörvar muni koma að umfjöllun um m.a. Meistaradeild Evrópu og Pepsi Max deild karla.

Hjörvar er íþróttaáhugamönnum landsins vel kunnugur, enda verið reglulegur gestur á skjám landsmanna sem knattspyrnusérfræðingur í rúman áratug. Hann hóf upphaflega störf hjá Stöð 2 Sport árið 2010. Undir lok síðasta sumars var Hjörvari sagt upp störfum hjá Sýn en nú er ljóst að hann snýr aftur á sinn gamla vinnustað.

Frá því að Hjörvar lauk störfum á síðasta ári hefur hann einbeitt sér að dagskrárgerð á hinu vinsæla Dr. Football hlaðvarpi, sem hann kom á fót fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan.

„Það er afskaplega ánægjulegt að vera kominn aftur. Ég mæti extra frískur aftur til leiks eftir smá frí. Ég mun gera mitt allra besta við að gera það sem ég hef alltaf gert - að reyna að segja fólkinu heima í stofu eitthvað sem það vissi ekki fyrir,“ er haft eftir Hjörvari í frétt Vísis. Þar segir jafnframt að hann muni vera í Meistaradeildarsettinu í kvöld, þegar viðureignir Real Madrid gegn Manchester City og Lyon gegn Juventus verða á dagskrá.