Félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hafa hafnað kjarasamningi félagsins við fjármála- og efnahagsráðherra sem undirritaður var 23. júní síðastliðinn. Þetta kemur fram á vefsíðu félagsins .

Samningurinn var felldur með 1677 atkvæðum á móti 219 eða með 88,4% gegn 11,6%. Alls voru 2236 hjúkrunarfræðingar á kjörskrá. Þar af greiddu 1896 atkvæði, eða 84,8%.

Í frétt félagsins segir að stjórn þess líti svo á að samningar félagsins séu nú lausir. Félagið muni endurmeta stöðuna í ljósi niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og fela lögmanni sínum að meta réttarstöðu félagsins gegn ríkinu.