„Við erum enn að bíða eftir að það komi raunhæft útspil frá ríkinu. Við vonum að það komi í dag. Ég er því hóflega bjartsýnn,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við Morgunblaðið , en enn er ósamið í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við ríkið. Samningafundur mun fara fram milli aðilanna í dag.

Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið að undanþágubeiðnir hafi borist jafnt og þétt. Í heild séu undanþágubeiðnir frá upphafi verkfallsins 261 talsins og þar af 184 frá Landspítalanum, en 42 beiðnum hefur verið hafnað. Það megi rekja til formgalla í flestum tilvikum.

Þá segir Ólafur það hafa aukist að íslenskir hjúkrunarfræðingar sæki um störf á Norðurlöndunum. „Í ljósi umræðunnar nýverið um að setja lög á verkfallið þá hef ég heyrt það á fólki að það muni ekki sætta sig við það. Margir líta á það sem næsta skref að vinna erlendis.“