„Ég sé á samfélagsmiðlum að fjölmargir hjúkrunarfræðingar íhugi nú að segja upp enda finnst þeim lagasetningin niðurlægjandi með öllu,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við Morgunblaðið . Þar er greint frá því að allir þeir sex hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi, sem voru á dagvakt í gær, hafi sagt upp störfum í kjölfar lagasetningar á verkfallsaðgerðir.

Ólafur segir að á þeim tveimur vikum sem verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga stóðu hafi þeir verið með 630 stöðugildi á lista yfir undanþágur. Að auki hafi nær allar undanþágur verið veittar sem beðið hafi verið um og því hafi enginn sjúklingur verið settur í hættu.

„Á þessum tíma drógum við úr okkar kröfum en ríkið var hins vegar alltaf statt á sama stað. Það kom fram með tilboð í samræmi við samninga á almennum markaði og haggaðist ekki frá því þrátt fyrir viðvaranir okkar þess efnis að við stæðum nú frammi fyrir því að missa fólk úr hjúkrunarstéttinni vegna lágra launa,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.