Greining Íslandsbanka hefur unnið nýtt verðmat á Landsbanka Íslands. Niðurstaða verðmatsins er 220 milljarðar króna sem jafngildir 21,0 krónum á hlut. Greining Íslandsbanka mælir með að fjárfestar haldi bréfum í Landsbankanum til lengri tíma litið.

Landsbankinn hefur vaxið gríðar hratt frá því að einkavæðingunni lauk 2002. Horft til næstu missera eiga Íslandsbankamenn von á því að vöxturinn verði áfram hraður. Markmið stjórnenda Landsbankans er að byggja upp fyrirtækja- og fjárfestingarbanka sem leggur áherslu á þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki um alla Evrópu. "Teather & Greenwood og Kepler eru góður grunnur til að byggja upp starfsemi í Evrópu, ásamt Heritable Bank, Key Business Finance, Landsbankanum í Lúxemborg og útibúinu í London. Þar fyrir utan á Landsbankinn 20% hlut í Carnegie. Íslenski markaðurinn hefur hins vegar minna svigrúm til að vaxa en undanfarin ár," segir Greining Íslandsbanka.

Niðurstaða verðmatsins er 220 ma.kr. sem jafngildir 21,0 krónum á hlut. "Við mælum með að fjárfestar haldi bréfum í Landsbankanum til lengri tíma litið. Ráðgjöf okkar til skemmri tíma er að markaðsvega bréfin í vel dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum. Í verðmatinu er ekki reiknað með ytri vexti. Það liggur þó fyrir að stefna Landsbankans er að vaxa frekar erlendis með fyrirtækjakaupum. Eiginfjárgrunnur Landsbankans er sterkur eftir uppskiptin á Burðarási svo bankinn hefur svigrúm til ytri vaxtar," segir í mati Íslandsbanka.