Í ljósi nýlegrar lækkunar vaxta og aukins framboðs lánsfjár hefur Greiningardeild Landsbankans hækkað spár um verðbólgu og stýrivexti. Í grunndæmi þar sem gert er ráð fyrir óbreyttu nafngengi krónunnar stefnir verðbólgan í rétt um 3½% frá upphafi til loka árs næstu tvö árin. Þetta kemur fram í nýju riti Greiningardeildar um stöðu og horfur í efnahagsmálum og á skuldabréfamarkaði.

Seðlabankinn mun að áliti Greiningardeildar bregðast við þessari nýju stöðu með því að beita stjórntækjum sínum af meiri krafti en áður var reiknað með. Í stað þess að hækka stýrivextir í 8% um mitt næsta ár gerir greiningardeild Landsbanka nú ráð fyrir því að stýrivextir verði hækkaðir tiltölulega hratt á næstu mánuðum og verði komnir í 8% um næstu áramót og að þeir fari hæst í 8,5% um mitt næsta ár.