Greiningardeild KB banka hefur gefið út uppfært verðmat á Marel hf. Uppgjör félagsins fyrir annan ársfjórðung var mjög gott og vel yfir væntingum þeirra. Það var einkum framlegðin sem fór fram úr björtustu vonum KB banka manna en EBIT framlegðin var á tímabilinu 11,9% sem er langtum betra en áður hefur sést hjá félaginu. Eini veiki bletturinn í uppgjörinu er lítill tekjuvöxtur sem kom á óvart miðað við yfirlýsingar félagsins um fjölda stórra samninga á tímabilinu.

"Eins og áður erum við mjög bjartsýn á rekstur Marels og trúum að stjórnendur félagsins muni halda áfram að bæta rekstur félagsins á næstu árum og gerir verðmatið ráð fyrir því. Eftir breyttar og bjartari forsendur okkar er niðurstaða okkar að virði Marels sé nálægt núverandi markaðsvirði. Niðurstaða verðmats er 12,4 ma.kr. og sé tekið tillit til eignarhluta félagsins í eigin bréfum fæst hækkun á verðmatsgengi okkar úr 43,1 í 52,8 en síðasta lokagengi bréfanna var 52,0," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Þar segir ennfremur að Marel er eina félagið sem verið hefur í yfirvogun hjá Greiningardeild KB banka frá upphafi árs og hefur félagið svo sannarlega ekki valdið þeim vonbrigðum. Reksturinn hefur batnað til muna og gengi bréfa félagsins hækkað um 117% á sl. 12 mánuðum. Þar sem verðmat okkar er nálægt núverandi markaðsverði mælum við áfram með að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu en í dreifðum eignasöfnum sem taka mið af íslenskum hlutabréfamarkaði mælum við áfram með yfirvogun á bréfum Marels.