Greiningardeild KB banka hefur unnið nýtt verðmat á stoð- og stuðningstækjafyrirtækinu Össuri hf. (OSSR) í kjölfar uppgjörs og rekstrarniðurstöðu félagsins á þriðja ársfjórðungi 2005 og kaupanna á Royce Medical. Niðurstaða verðmatsins gefur 41,1 milljarða kr. virði félagsins (690 milljónir dollara) og jafngildir það verðmatsgenginu 107,0 krónum á hlut miðað við gengi dollarans 59,6 gagnvart krónu.

Niðurstaðan er 63,2% hærri en síðasta verðmat þeirra á félaginu frá 23. júní 2005 sem gaf 25,2 ma.kr. virði félagsins og verðmatsgengið 80,3.

Greiningardeild KB banka mælir því með að fjárfestar kaupi hlutabréf í Össuri og í dreifðum eignasöfnum mælum þeir með yfirvogun á bréfum félagsins.

Verðmatið byggir á sjóðstreymislíkani þar sem 11,0% nafnávöxtunarkrafa er gerð til eigin fjár og veginn fjármagnskostnaður félagsins (WACC) er áætlaður 9,21%. Framtíðarvöxtur er áætlaður 5,5% eftir árið 2013, óbreytt frá síðasta verðmati. Virði félagsins er þannig reiknað út frá núvirtu sjóðstreymi til fyrirtækisins næstu 10 árin (FCFF) að viðbættu framtíðarvirði í lok spátímabilsins (Terminal Value) og 30 m.USD af handbæru fé sem ekki tengist með beinum hætti rekstri félagsins. Frá því eru síðan dregnar nettó skuldir, sem eru áætlaðar um 220 milljónir dollara.