Greiningardeild KB banka hefur unnið nýtt verðmat á Bakkavör þar sem lagt er mat á þær upplýsingar sem liggja fyrir um fyrirhugaðan samruna við Geest. Niðurstaða verðmatsins er 36,4 krónur á hlut sem er 47% hærra en síðasta verðmat þeirra frá 28. júni sem hljóðaði upp á 24,8. Hagnaður Bakkavarar á síðasta ári var 13,1 milljón punda, en á þessu ári gerum þeir ráð fyrir að hagnaðurinn verði 18,6 milljónir punda ef Geest væri inn í rekstrinum allt árið. Fyrir árið 2006 erum þeir að spá 28,9 milljón punda hagnaði og 40 milljón pundum fyrir árið þar á eftir.

Bakkavör er mjög skuldsett eftir kaupin á Geest og vaxtagreiðslur eru því hár fastur kostnaður í rekstri félagsins. "Við búumst því við mikilli aukningu hagnaðar á næstu árum og það án útgáfu nýrra hluta. Rétt er þó að athuga að skuldsetning er tvíeggja sverð og áhætta félagsins hefur aukist verulega, ef illa árar geta áhrifin á hagnað félgsins orðið veruleg. Niðurstaða verðmats á Bakkavör er að gott kauptækifæri sé í bréfum félagsins og mælum við með að fjárfestar yfirvegi bréfin í eignasöfnum sem taka mið af íslenska markaðinum," segir greiningardeild KB banka.