Eiginfjárhlutfall HS Orku hefur batnað töluvert frá því í upphafi árs. Það er nú 23,0 prósent en var 16,3 prósent í byrjun árs 2009. Þessi bætta staða stafar fyrst og fremst af því að álverð hefur hækkað töluvert það sem af er ári og þar af leiðandi hækkar framtíðarvirði álverssamninga HS Orku um rúma 2,2 milljarða króna. Á sama tíma nam gengistap fyrirtækisins um 1,2 milljörðum króna. HS Orka metur eignir sínar í dag á 37,4 milljarða króna en skuldar um 28,8 milljarða króna, að mestu í erlendri mynt.

Hagnaður félagsins nam 2.226 milljónum króna og má rekja hann að nær öllu leyti til hækkaðs framtíðarvirðis álverssamninga HS Orku. Árið 2008 tapaði fyrirtækið hins vegar 11,7  milljörðum króna. Auk þess seldi HS Orka land undir virkjunum sínum til Reykjanesbæjar fyrr á árinu og er bókfærður söluhagnaður vegna þessa 784 milljónir króna.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi fyrirtækisins sem birtur var í dag og sýnir stöðu HS Orku 30. september síðastliðinn. HS Orka, og fyrirrennari hennar Hitaveita Suðurnesja, er ekki vant að birta níu mánaða uppgjör. Fyrirtækið gerir það nú „vegna sérstakra aðstæðna og að beiðni hluthafa.“

Uppfylla ekki  fjárhagsskilyrði lánasamninga

Í árshlutareikningnum kemur fram að HS Orka uppfylli ekki fjárhagsskilyrði í lánasamningum um lágmarkseiginfjárhlutfall og rekstrarhlutföll. Samkvæmt því þá geta lánveitendur HS Orku gjaldfellt lán fyrirtækisins, en skuldir þess eru að mestu í erlendum gjaldmiðlum. Í tilkynningu frá HS Orku segir að fyrirtækið hafi náð samkomulagi við Norræna fjárfestingabankann og Þróunarbanka Evrópu um að „bankarnir afsali sér rétti til gjaldfellingar vegna brota á upphaflegum fjárhagsskilyrðum í ákveðin tíma og skipta þeim út fyrir ný fjárhagsskilyrði til skamms tíma.“ Þá segir að samkomulag við Fjárfestingabanka Evrópu sé á lokastígi.