Greiningardeild Landsbankans segir í nýrri greiningu um þróun á skuldabréfamarkaði að miklar sveiflur hafi að undanförnu verið í kröfum flestra markflokka vegna mikils óróa á mörkuðum í  kjölfar vandræða tengdum ótryggum íbúðarlánum í Bandaríkjunum. Þá hefur mikil velta verið á skuldabréfamarkaði frá því að umrót á erlendum mörkuðum hófst upp úr miðjum júlímánuði.

"Meðalvelta á viku síðastliðnar átta vikur var til að mynda nær helmingi meiri en á sama tíma í fyrra," segir í Fókus, greiningu Landsbankans. Greiningardeildin telur að krafan á RB10 og RB13 komi til með að  haldast há  mun lengur en fyrri spá gerði ráð fyrir og að  krafa ríkisbréfa muni koma til baka og lækka er líða fer á næsta ár. "Verðbólguálag til fjögurra ára hefur náð hápunkti sínum og mun fara lækkandi næsta árið," spáir Greiningadeildin.