*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 18. nóvember 2004 14:04

Hækkandi framfærsluhlutfall í Evrópu krefst aðgerða

Ritstjórn

Samkvæmt nýjustu tölum frá evrópsku hagstofunni (Eurostat) mælist frjósemi í ESB ríkjunum nú um 1,5 barn á hverja konu og gert er ráð fyrir að hún verði áfram undir viðhaldsmörkum en þau eru 2,1 barn á konu. Lífslíkur hafa einnig aukist um þrjá mánuði á ári sem þýðir að þær verða komnar yfir 80 ár fyrir karlmenn og 85 ár fyrir konur árið 2050. Fjölgun innflytjenda mætir að einhverju þessari þróun en ljóst er að aldurssamsetning þjóðanna er samt sem áður að breytast töluvert.

Í í vefriti fjármálaráðuneytisins kemur farm að framreikningar Eurostat gera ráð fyrir því að íbúafjöldi í aðildarríkjunum 25
vaxi úr 452 milljónum árið 2000 í 470 milljónir árið 2025. Eftir það mun
íbúum fækka og verður íbúafjöldinn kominn í 450 milljónir árið 2050.
Mismunur milli landa er töluverður. Í Frakklandi, Írlandi og Stóra-Bretlandi
mun fólki fjölga meðan fækka mun verulega í Þýskalandi, Ítalíu og
Grikklandi.

Gert er ráð fyrir að fólki á vinnualdri taki að fækka frá og með árinu 2010 en
áætlað er að fjölda á þessum aldri (15-64) fækki um 18% frá 2010-2050. Á
sama tíma mun fjöldi fólks eldra en 65 ára tvöfaldast. Þetta þýðir að
framfærsluhlutfall, þ.e. hlutfall 65 ára og eldri á móti fólki á vinnualdri mun
tvöfaldast, úr 25% í dag í yfir 50% árið 2050. Með öðrum orðum, í dag eru
fjórir á vinnumarkaðsaldri fyrir hvern einn eldri en 65 ára en árið 2050 verða þeir einungis tveir.

Ólíklegt er að framleiðniaukning muni ná að mæta þessari fækkun fólks á
vinnumarkaði að fullu og er því trúlegt að þetta muni hafa neikvæð áhrif á
hagvöxt í framtíðinni. Að mati sérfræðinga ESB er ætlað að mannfjöldaþróunin muni minnka hagvöxt um allt að 1% á ári. Þessi þróun mun einnig leiða til aukinna útgjalda hins opinbera til lífeyris- og heilbrigðismála.

Áætlanir ESB benda til þess að þessar breytingar á aldurssamsetningu
þjóðanna muni leiða til þess að ríkisútgjöld aukist á bilinu 3-7% af VLF fyrir
árið 2050. Þessar horfur um áhrif breyttrar aldurssamsetningar á hagvöxt og ríkisfjármál voru á dagskrá á fundi fjármálaráðherra EFTA- og ESB-ríkjanna sem haldinn var í Brussel 9. nóvember. Ráðherrarnir urðu sammála um að þessar spár kölluðu á umbætur og kerfisbreytingar í bæði lífeyris- og heilbrigðismálum.

Víða þyrfti að hækka lífeyristökualdur, auka sveigjanleika á vinnumarkaði og
efla lífeyrissjóði. Eins og oft hefur verið bent á er staða Íslands mjög frábrugðin þeirri mynd sem blasir við Evrópusambandinu. Íslendingum hefur fjölgað mun meira en Evrópuþjóðum á undanförnum árum. Frjósemi hefur lækkað nokkur en er þó sú næst hæsta af löndum ESB og EFTA. Einungis á Írlandi eiga konur fleiri börn en hér á landi. Þá breytir mikil atvinnuþátttaka í eldri árgöngum og uppbygging lífeyriskerfis miklu um álag á hið opinbera í framtíðinni segir í vefriti fjármálaráðuneytsins.