Frá upphafi árs og fram í júlí hækkaði heimsmarkaðsverð á olíu um u.þ.b. 20% en eftir lækkanir undanfarinna vikna er öll sú lækkun gengin til baka, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Ástæður lækkananna felast bæði í árstíðabundnum þáttum og bættum horfum í miðausturlöndum. Nú síðast leiddu fréttir um stuðning Bandaríkjamanna við samningaleiðin verði farin í kjarnorkudeilunni við Íran og góð olíubirgðastaða til þess að olíuverð á heimsmarkaði fór niður í tæplega 61 dollar á tunnu," segir greiningardeildin.

Bensínverð sveiflast meira en olíuverð

Bensínverð sveiflast þó töluvert meira en olíuverð á heimsmarkaði. ?Til að mynda hækkaði heimsmarkaðsverð á bensíni um 40% frá febrúar til júlí á þessu ári og er sú hækkun nú að mestu gengin til baka. Ef heimsmarkaðsverð á bensíni í krónum talið er skoðað er hækkunin frá febrúar til júlí hinsvegar mun meiri eða u.þ.b. 60%. Athyglisvert er að á sama tíma hækkaði eldsneytisverð hér á landi um tæp 20% og virðist því sem einungis þriðjungur hækkunarinnar hafi hleypst út í verðlagið.

Miðað við meðaltal júlímánaðar hefur heimsmarkaðsverð á bensíni í íslenskum krónum talið aftur á móti lækkað um tæp 40% á sama tíma og bensínverð innanlands hefur lækkað um 15%. Í þessu tilviki virðist því einnig sem um þriðjungur breytingarinnar í heimsmarkaðsverði komið fram í bensínverði innanlands," segir greiningardeildin.

Hún segir ástæðuna liggja annarsvegar í að gjöld á eldneyti er föst krónutala (um 53 krónur) og hinsvegar virðist sem olíufélögin innlimi ekki allar verðbreytingar samstundis.