Aðgerðasinnar í Malasíu hóta að mótmæla naktir vegna skyndilegra hækkana á leigu félagslegra íbúða. Margir múslímar og lögregluyfirvöld hafa harðlegra gagnrýnt áformin.

Aðgerðasinnarnir hyggjast mótmæla fyrir utan höfuðstöðvar fylkisstjórans í Selangor-héraði í kjölfar þess að ákveðið var að hækka leigu á félagslegum íbúðum um helming.

AFP-fréttastofan hefur eftir Ramlan Abu Bakar, liðsmanni Endurbótafylkingar alþýðunnar, að fyrirhuguð mótmæli séu örvæntingarfullt úrræði en að sama skapi táknræn þar sem  að stjórnvöld séu bókstaflega að rýja fólk að skinni með hækkunum.

Stjórnmálafl harðlínumúslima, PAS, gagnrýnir fyrirhuguð mótmæli.

Ríkisfjölmiðlar í Malasíu hafa eftir Nik Abdul Aziz Nik Mat, andlegum leiðtoga flokksins, að aðeins „ósiðmenntað fólk” myndi grípa til slíkra aðgerða.

Hann segir að jafnvel skynlausar skepnur hylji kynfæri sín og segir Guð hafi til að mynda skapað kýr með rófu í því skyni. Mótmælendurnir hafi hinsvegar verið skapaðir með vit og ættu því að vita betur.

En það er ekki eingöngu hið andlega kennivald sem setur sig upp á móti fyrirhuguðum aðgerðum. AFP hefur einnig eftir Khalid Abu Bakar, sem er yfirmaður lögreglunnar í héraðinu, að gripið verði til aðgerða gagnvart öllum þeim sem standa fyrir ólöglegum mannsafnaði – enn frekar svo safnist þeir saman naktir.