Þær breytingar sem gerðar hafa verið á raforkulögum síðastliðin þrjú ár hafa skilað sér í stórfelldum hækkunum til neytenda samkvæmt nýrri úttekt Alþýðusambands Íslands.

Í kjölfar breytinganna hefur heildarkostnaður meðalheimilis vegna raforkunotkunar hækkað um allt að 14% í þéttbýli og 33% í dreifbýli. Heildarkostnaður minni heimila hefur hækkað mun meira, eða um allt að 25% í þéttbýli og 48% í dreifbýli. Einnig hefur komið í ljós að sú breyting að heimili og fyrirtæki geti nú valið sér raforkusala muni einungis skila sér í innan við 2000 króna sparnað á ári fyrir meðalheimili.

Þessar hækkanir hljóta að teljast vonbrigði þar sem búist var við að breytingarnar myndu bæta samkeppnisumhverfið í raforkugeiranum og skila sér í lægra raforkuverði til neytenda enda er það sú þróun sem hefur orðið víðast hvar annars staðar í Evrópu í kjölfar markaðsvæðingar raforkuiðnaðarins.

Nýju raforkulögin

Nýju raforkulögin voru sett með það að markmiði að koma á samkeppnismarkaði í orkumálum í samræmi við orkumálatilskipun Evrópusambandsins. Lögin hafa tekið gildi í áföngum frá árinu 2003 og tók síðasti áfanginn gildi nú um síðustu áramót. Mestu breytingarnar felast í því að orkufyrirtækin þurfa nú að aðskilja starfsemina þannig að framleiðsla og sala verði sjálfstæðar einingar og dreifing og flutningur önnur aðskild sjálfstæð eining. Vinnsla og sala raforku er nú háð frjálsri samkeppni og almennir neytendur geta því í kjölfarið valið sér raforkusala en dreifing og flutningur eru ennþá háð sérleyfi.

Enn sem komið er geta almennir notendur þó ekki valið sér raforkusala þar sem tafir hafa orðið í uppsetningu viðskiptahugbúnaðar en talið er að heimili geti byrjað að nýta sér frjálst val um mitt þetta ár. Stærri notendur, eða þeir sem nota 100 kílóvatta afl eða meira, hafa getað valið sér raforkusala síðan í árbyrjun 2005.

Hækkanir í kjölfar breytinga

Í Evrópu og víðar, þar sem markaðsvæðing hefur verið framkvæmd, hefur þróunin verið sú að raforkuverð hefur lækkað til fyrirtækja og heimila í kjölfar innleiðingar tilskipunarinnar. Það hefur gerst þannig að veitusvæði hafa verið tengd saman, en þannig næst betri stjórnun og þá nýting á virkjunum og flutningslínum. Við þetta skapast aukin afkastageta sem hefur skilað sér í lægra verði til neytenda. Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Sigurður Ágústson hjá Samorku að slíkir nýir möguleikar væru ekki til staðar á Íslandi þar sem raforkukerfið hefði lengi verið samtengt sem ein heild. Þá væri kerfið hér sérstakt að því leyti að framleiðsla rafmagns væri á fárra hendi, en erlendis væru það víðast hvar mörg fyrirtæki sem væru að framleiða inn á orkumarkaðinn og á þann veg yrði til sú samkeppni sem verið væri að leita eftir hérlendis.

Sigurður Ágústsson segir að þær hækkanir sem orðið hafa á raforkuverði síðastliðið ár hljóti að vera tilkomnar vegna aukins kostnaðar tengdum breyttu fyrirkomulagi þar sem nú séu orkufyrirtækin á suð-vesturhorninu að greiða Landsneti fyrir flutningskostnað á rafmagninu, nokkuð sem þau gerðu ekki áður. Auk þess hafi nú ýmsir sérsamningar sem fyrirtæki og einstaklingar höfðu áður fallið úr gildi, má þar nefna rafmagn til næturnotkunar í iðnaði, fiskeldis og gróðurhúsa. Það er andi laganna, að ekki skuli ein atvinnugrein greiða niður rafmagn fyrir aðra, eða sérleyfisþátturinn í flutningi og dreifingu greiða niður samkeppnishlutann í framleiðslu og sölu. Þessar breytingar hafa haft í för með sér hækkun orkuverðs hjá einstökum aðilum en einnig lækkun hjá öðrum. Sigurður bendir á með tikomu laganna opnist nú sá möguleiki fyrir viðskiptavini, sérstaklega fyrirtæki, að leita sér að hagstæðasta söluaðila og gera samning um viðskipti, sem geta orðið báðum aðilum hagstæð, kaupanda og seljanda.

Fáir sem græða á raforkulögunum

Í samtali við Viðskiptablaðið taldi Franz Árnason, forstjóri Norðurorku, að raforkulögin myndu almennt ekki skila sér í lægra raforkuverði til heimila og smærri fyrirtækja. Millifærslur í flutningskerfinu og niðurgreiðsla á dreifikostnaði í dreifbýli urðu þó til þess að heildarraforkuverð lækkaði á dreifisvæði Rarik og líklega á Vestfjörðum en hækkaði annars staðar. Fyrir utan þetta væru stór iðnaðarfyrirtæki sem hafa háan nýtingartíma á rafmagni væntanlega einu aðilarnir sem munu græða á raforkulögunum. Franz sagðist ekki búast við að litlir notendur eins og heimilin myndu skipta um raforkusala í stórum stíl á árinu enda væri verðskrá allra raforkufyrirtækjanna svipuð og mesti verðmunur milli raforkusala væri 115 krónur á mánuði fyrir meðalheimili.

Aðspurður sagði Franz að ekki væri gott að segja hver áhrif raforkulaganna yrðu til lengri tíma litið. Þó mætti ljóst vera að ekki væru líkur á að nýir aðilar kæmu að virkjunum nema í litlum mæli þar sem flest arðbærustu virkjunartækifærin væru þegar á höndurm núverandi raforkuframleiðenda og að einn framleiðandi réði yfir allt að 80% framleiðslunnar. Hann taldi heldur ekki líklegt að nýir raforkusalar mundu birtast á markaðnum á næstunni. Raforkutilskipun Evrópusambandsins, sem raforkulögin taka mið af, er sniðin fyrir a.m.k. 1000 sinnum stærra markaðssvæði en Ísland er og því ekki líklegt að þessar reglur falli nægilega vel að okkar veruleika né virki á sama hátt og annars staðar í Evrópu, segir Franz.

Breytinga þörf

Flestir virðast vera sammála um að raforkutilskipun Evrópusambandsins falli ekki vel að íslenskum aðstæðum og til þess að raforkulögin myndu hafa svipuð áhrif og þau hafa verið að hafa annars staðar í Evrópu er ljóst að raforkuumhverfið á íslandi myndi þurfa að ganga í gegnum töluverðar breytingar. Í þessu sambandi hefur verið bent á að að ekki sé um virka samkeppni á Íslandi að ræða fyrr en opinberir aðilar minnki eignahlut sinn í raforkufyrirtækjum og losað yrði um hagsmunatengls. Einnig er nauðsynlegt að skoða sterka stöðu Landsvirkjunar í þessu sambandi. Eðlilegasta þróunin í anda raforkutilskipunar Evrópusambandsins væri því að skipta Landsvirkjun niður í smærri einingar með einkavæðingu. Ólíklegt er þó að það muni gerast þar sem þróunin undanfarin ár hefur verið í gagnstæða átt en Landsvirkjun hefur verið að auka framleiðsluhlut sinn frekar en hitt.