Hlutabréf hækkuðu í Evrópu í dag og hafa ekki verið hærri í sex vikur að sögn Reuters fréttastofunnar. Eins og greint var frá í morgun hafa olíufélög og bílaframleiðendur leitt hækkanir dagsins.

FTSEurofirst 300 vísitalan hækkaði um 1,2% í dag og hefur ekki verið hærri frá 26. júní síðastliðnum að sögn Reuters.

Olíuverð hækkaði nokkuð í morgun þar sem átökin í Georgíu ollu fjárfestum áhyggjum en fór þó lækkandi þegar líða fór á daginn. Engu að síður hefur orðið nokkur töf á flutningi olíu frá Kaspíarhafi.

Olíufélögin BP, Shell, Total og ENI hækkuðu á bilinu 1,1 – 2,2% í dag en Shell og BP höfðu um tíma hækkað um allt að 2,5%.

Lækkandi gengi evrunnar kemur bílaframleiðendum í Evrópu til góða og leiddi það til hækkana bílaframleiðanda.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,9% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,7%.

Í París og í Sviss hækkuðu CAC 40 og SMI vísitölurnar um 1%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,8%, í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,4% og í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 1,6%.

Hækkun vestanhafs

Í Bandaríkjunum hafa hlutabréf hækkað frá því að opnað var fyrir viðskipti kl. 13:30 að íslenskum tíma. Þannig hefur Nasdaq hækkað um 1,4%, Dow Jones um 0,6% og S&P 500 um 0,9%.

Að sögn Bloomberg fréttavikunnar er hækkun hlutabréfa í Bandaríkjunum s.l. 5 daga sú hæsta frá því í apríl en talið er að framleiðslukostnaður muni lækka á næstunni í ljósi þess að hjöðnun hefur orðið á hækkun olíuverðs.