Hlutabréf hækkuðu við opnum markaða í New York í morgun. Þannig hefur Nasdaq og Dow Jones hækkað um 2% og S&P 500 hefur hækkað um 2,2%.

Eins og áður hefur komið fram var tap bæði Lehman Brothers og Goldman Sachs minna en gert hafði verið ráð fyrir og vekur það upp nokkra von að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Þá hafa bankar og fjármálafyrirtæki tekið við sér í dag. Citigroup hefur hækkað um 6% en JP Morgan, Merrill Lynch og Bank of America hafa öll hækkað meira en 5% í dag, innan við klukkustund frá opnun markaða.

Olía hefur hækkað um 2,4% og kostar tunnan af hráolíu þegar þetta er skrifað 108,21 í New York. Eins og venjulega hækka olíufyrirtæki í kjölfarið en þannig hefur Exxon Mobile hækkað um 2% í morgun.

Yahoo hefur hækkað um 5,2% eftir að hafa kynnt niðurstöðu fyrsta ársfjórðungs í dag og sent þau skilaboð til Microsoft að félagið sé vel statt og fært um að standa á eigin fótum en Microsoft hefur síðustu vikur reynt að yfirtaka félagið. Yahoo segir að í tilkynningu að eigið fjármagn muni tvöfaldast á næstu þremur árum.

Evrópa tekur við sér

Þá hafa hlutabréf einnig hækkað í Evrópu í dag en í gær lækkuðu vísitölur í allri Evrópu. Kl. 14:50 í dag hafði FTSEurofist vísitalan hækkað um 3,1% en hún mælir sameiginlegar vísitölur í Evrópu.

Bæði FTSE 100 vísitalan í Lundúnum og DAX  vísitalan í Frankfurt hafa hækkað um 2,87%. Þá hefur OMXC vísitalan í Kaupmannahöfn hækkað um 1,4% og OBX vísitalan í Osló hækkað um 1,32%