Gengi Bandaríkjadals hélt áfram að lækka gagnvart evrunni og helstu hlutabréfavísitölur á alþjóðamörkuðum hækkuðu víðast hvar í kringum eitt prósent í gær. Þróunin á hlutabréfamörkuðum var meðal annars rakin til orðróms um að seðlabanki Bandaríkjanna hygðist boða til neyðarfundar í því augnamiði að lækka stýrivexti, úr 4,5% í 4,25%.

Fram kemur í frétt Financial Times að sumir fjárfestar áttu von á því að Ben Bernanke, seðlabankastjóri, myndi tilkynna um vaxtalækkunina, samhliða útgáfu á nýrri efnahagsspá bankans og fundargerðar frá síðustu vaxtaákvörðun þann 31. október, sem birtist klukkan 19 í gærkvöldi að íslenskum tíma (eftir að Viðskiptablaðið fór í prentun). Sérfræðingar gáfu hins vegar lítið fyrir slíkar vangaveltur og bentu á að með slíkri aðgerð myndi seðlabankinn senda röng skilaboð til markaðsaðila og jafnframt grafa verulega undan trúverðugleika sínum.

Nánar er fjallað um væntngar markaðasaðila og peningamálayfirvalda í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins.