Hlutabréfavísitölur hækkuðu í Asíu í dag eftir lækkanir síðustu daga og má rekja hækkanir dagsins til þess að fjárfestar telji að hagnaður asískra fyrirtækja verði skárri en búist var við fyrir nokkrum dögum.

Í síðustu viku voru birtar tölur sem gáfu til kynna mikinn samdrátt í útflutningi, þá aðallega rafmagnstækjum frá Japan.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði í dag um 3,1% en hafði lækkað um 19% síðustu fjóra daga. Í gær hafði vísitalan ekki verið lægri frá því í ágúst árið 2003 en vísitalan hefur lækkað um 51% það sem af er ári.

Í Japan hækkaði NIkkei vísitalan um 6,4% eftir að japönsk yfirvöld settu í dag hindranir á skortsölur á mörkuðum. Í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 13,2% eftir að yfirvöld þar í landi tilkynntu að þau myndu aðstoða fjármálakerfið í landinu ef þess gerðist þörf.

Í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan um 4,3%, í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 1,4% en í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan hins vegar um 0,4%.