Hlutabréf lækkuðu í Asíu í dag og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki ásamt orkufyrirtækjum sem leiddu lækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 0,8% og sá hluti sem snýr að orkufélögum lækkaði hvað mest í vísitölunni.

Þá lækkaði Nikkei vísitalan í Japan um 0,7% og S&P 200 vísitalan í Ástralíu um 1%.

Í Kína hækkaði hins vegar CSI 300 vísitalan um 0,4%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan  um 0,6% og í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 0,1%.

Eins og fyrr segir lækkuðu námu-, olíu-, og orkufyrirtæki nokkuð í dag. Þannig lækkaði BHP námufélagið um 4,4%, næst stærsta olíufélag Ástralíu lækkaði um 7,8% og kínverska olíufélagið Cnooc lækkaði um 3,3%.