Hlutabréfamarkaðir í Evrópu ýmist hækkuðu eða lækkuðu í dag. FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði þó um 0,4% og hefur ekki verið lægri í tvær vikur.

Að sögn Reuters hafa fjárfestar áhyggjur af því að björgunaraðgerðir bandarískra stjórnvalda verði óskilvirkar og muni lítil áhrif hafa á markaði.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins, þá helst á Bretlandi.

Þannig lækkaði Barclays  um 6,2%, Royal Bank of Scotland um 6,1% og HBOS um 6% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,3% en í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,3% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,6%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 1,1% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,7%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 0,3%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 0,1% en í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,2%.