Búist er við að bandaríska lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals muni upplýsa í dag hvort það hyggst hækka tilboð sitt í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva og reyna þannig að yfirbjóða Actavis, sem boðið hefur 2,5 milljarða Bandaríkjadala í fyrirtækið, eða 175 milljarða króna.

Actavis gerði formlegt kauptilboð í Pliva 31. ágúst síðastliðin að virði 795 króatískar kúnur á hlut og yfirbauð Barr, sem hafði sent inn kauptilboð upp á 755 kúnur á hlut. Það félag sem hreppir Pliva verður þriðji stærsti framleiðandi samheitalyfja í heiminum, á eftir ísraelska félaginu Teva og svissneska félaginu Novartis.

Pliva greindi frá því á þriðjudaginn að hagnaður félagsins á fyrri helmingi ársins hefði numið 62,9 milljónum punda, eða um 4,4 milljörðum króna. Samkvæmt frétt Reuters fréttastofunnar er það í samræmi við væntingar greiningaraðila, þrátt fyrir að sala sé heldur minni en vænst var.

Afkoma Pliva er mun betri en á sama tíma í fyrra, þegar félagið tapaði 83,1 milljón dala. Salan jókst um 2,4% milli ára og var 516,7 milljónir dala, eða 36,1 milljarður króna. Rekstrarhagnaður Pliva á síðasta fjórðungi nam aðeins níu milljónum dala og hefur Reuters eftir Bernd Maurer, sérfræðingi hjá Raiffeisenbank, að það sé ekki mikið fyrir félag sem metið er á 2,5 milljarða dala en niðurstaðan ætti ekki að koma neinum á óvart.

Actavis hefur tryggt fjármögnun til að styðja við hugsanleg kaup á Pliva, en auk Landsbankans og Glitnis munu breski bankinn HSBC, bandaríski fjárfestingabankinn JP Morgan og svissneski fjárfestingabankinn UBS sölutryggja lánsfjármögnun vegna kaupanna.