Greiningardeild Glitnis hefur hækkað verðmatsgengi sitt á Landsbanka í 33 krónur á hlut, úr 28 krónum á hlut.

?Verðmatsgengið er nokkuð yfir gengi á markaði (30,1). Verðbil okkar miðast við 10% frávik frá verðmatsgengi sem gefur verðbilið 29,7-36,3. Þar sem verð hlutabréfa Landsbankans fellur inni í verðbilið er ráðlegging okkar til fjárfesta að halda bréfum í félaginu horft til langs tíma.

Verðmat okkar er hinsvegar 9,6% hærra en verð hlutabréfanna á markaði og því teljum við gott rými fyrir hækkun hlutabréfa bankans. Markgengi (e. target price) er sett 33,0 en það er spá okkar um hvar gengi bréfa í félaginu standi að sex mánuðum liðnum,? segir hún.

Uppgjör banks á fjórða fjórðung 2006 var langt yfir væntingum greiningardeildar. ?Uppgjörið hefur áhrif til hækkunar á verðmati okkar á bankanum þar við teljum að vöxtur bankans verði hraðari en við áður ætluðum. Innlánaaukning hjá bankanum hefur farið fram úr björtustu vonum sem hefur jákvæð áhrif á aðra fjármögnun bankans þar sem tryggingarálag á bankann hefur farið lækkandi að undanförnu. Við gerum því ráð fyrir sterkum innri vexti sem fjármagnaður verði að miklu leyti með innlánaaukningu.

Innlánaaukning er að mestu í formi skammtímalána en uppsetning Icesave miðast við að tryggja stöðugan innlánastafla til langs tíma. Við hækkum forsendu um ávöxtun hlutabréfasafns í 15% en í síðasta verðmati var forsendan færð niður í 12%. Að okkar mati bíður nálgun Landsbankans að fjárfestingum í hlutafélögum upp á umframávöxtun miðað við langtímameðaltalsávöxtun hlutabréfamarkaða. Við lækkum einnig forsendu um virðisrýrnun útlána úr 0,7% í 0,6% af útlánum en virðisrýrnunarhlutfall bankans var 0,4% á árinu 2006,? segir greiningardeildin.