Greiningardeild Kaupþings hækkar verðmatsgengið á Össuri í 124,1 úr 120 og hækkar tólf mánaða markgengið í 137 úr 130, í nýju verðmati sem birtist í dag. Ráðgjöf er nú að fjárfestar kaupi (Buy) bréf í Össuri í stað um að auka við sig í félaginu (Accumulate), sem var hin fyrri ráðgjöf.

?Rétt fyrir jól keypti Össur franska félagið Gibaud og verður fjórði ársfjórðungur litaður af kostnaði vegna endurskipulagningar félagsins. Þá gerum við ráð fyrir að samþætting annarra fyrirtækja samstæðunnar hafi einnig tekið sinn toll á fjórðungnum. Það er mat okkar að kaupin á Gibaud séu til þess fallin að auka virði Össurar.

Þau munu hins vegar hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins til skamms tíma. Við spáum því að Össur muni skila tapi uppá 3 milljónir dollara á fjórða ársfjórðungi, en vekjum athygli á því að við teljum nokkra óvissu ríkja um skattfærslu í fjórðungnum sem getur haft veruleg áhrif á endanlegan hagnað,? segir greiningardeildin.