Bandarísk hlutabréf hækkuðu í fyrsta skipti í þrjá daga í dag, en fyrir þeirri hækkun fóru fjármála- og orkufyrirtæki.

Exxon, stærsta olíufyrirtæki Bandaríkjanna, hækkaði um rétt tæplega dollara á hlut, eða 1,1% í dag. Önnur olíufyrirtæki hækkuðu líka, en olíuverð hækkaði í dag og var á tímabili 113,99 dalir á tunnu sem er met.

Einnig virðast fréttir af sameiningu flugfélaga hafa haft jákvæð áhrif. Nasdaq vísitalan hækkaði í dag um 0,45%, Dow Jones hækkaði um 0,49% og Standard & Poor´s hækkaði um 0,46%. Olíuverð hækkaði um 1,84% og er nú 113,82 dalir á tunnu.