Töluverð hækkun varð á gengi bréfa FL Group þegar opnað var fyrir viðskipti í Kauphöll Íslands í morgun og hafa bréfin hækkað um ríflega 3% það sem af er morgni. Miklar vangaveltur hafa verið undanfarið um það hvert félagið stefnir með fjárfestingar sínar, einkum Icelandair og ljóst að frétt Morgunblaðsins hefur ýtt undir slíkt.

Í samtölum við markaðs- og greiningaraðila kemur fram að margir telja að félagið þurfi að losa um fjármuni til að geta staðið við þau áform sem hafa verið boðuð hjá félaginu og komu meðal annars fram á markaðsdegi þess í Amsterdam í síðustu viku. Þar var meðal annars boðað að Refresco hyggist ráðast í sex uppkaup og sameiningar á næstu sex mánuðum.