Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Icelandic Water Holdings ehf. sem á og rekur nýja vatnsverksmiðju Icelandic Glacial í Þorlákshöfn, segir langtímaáhrif af gengisbreytingum að undanförnu vera mjög hagstæða fyrir verksmiðjuna.

Eigi að síður skaði gjaldeyrisvandræði hér innanlands ímynd allra fyrirtækja sem eru í samskiptum við útlönd og þau missi traust.

Gengisbreytingar mjög hagstæðar

„Við erum á sama báti og aðrir varðandi gjaldeyrismálin. Það gengur erfiðlega að fá yfirfærslu. Við vorum þó heppin þar sem við vorum að gangsetja nýja verksmiðju og vorum búin að kaupa inn öll hráefni og koma þeim í hús áður en hrunið varð,“ segir Ragnar.

„Varðandi gengismálin er bæði um að ræða skammtíma- og langtímaáhrif. Langtímaáhrifin eru mjög góð þar sem við seljum allt í dollurum sem hækkað hefur mikið gagnvart krónu og öðrum myntum. Það er því mjög mikill búhnykkur fyrir okkar tekjuhlið. Megnið af okkar gjöldum er hráefnið sem er í evrum og laun starfsmanna sem eru í krónum og reyndar í dollurum líka í Bandaríkjunum. Það hefur mjög góð áhrif á okkur að evran sem við kaupum mest af okkar hráefni fyrir sé að veikjast og dollarinn að styrkjast.“

Ragnar segir að fjármögnun verksmiðjunnar sé að mestu lokið og einungis eftir að klára hluta af því dæmi sem tengist rekstrarfé.

Jón Ólafsson stofnaði Icelandic Water Holdings ehf. árið 2004 og selur fyrirtækið nú vatn á erlendan markað undir vörumerkinu Icelandic Glacial.

Félagið hefur síðastliðin þrjú ár starfrækt átöppunarverksmiðju fyrir Icelandic Glacial vatnið í Þorlákshöfn. Fyrirtækið gangsetti nýja verksmiðju þann 29. september sl. og er hún í landi Hlíðarenda í Ölfusi. Verksmiðjan er um 6.700 fermetrar að stærð og mun í fyrri áfanga anna átöppun um 100 milljón lítra á ári.

Þarf aðeins örfáa starfsmenn

„Við erum núna að vinna við gangsetningu verksmiðjunnar og í þessum töluðu orðum erum við að gangsetja eins lítra flöskurnar og búin að gangsetja hálfs lítra flöskurnar. Við verðum búin að klára þetta ferli í lok nóvember,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að við það að flytja starfsemina í nýja verksmiðju hafi þurft að hagræða þar sem nýja verksmiðjan sé mjög sjálfvirk og útheimti aðeins örfáa starfsmenn.

Því hafi þeir sagt upp í haust skólafólki sem starfaði í gömlu verksmiðjunni í sumar þar sem unnið var á fjórum vöktum.

Nú um mánaðamótin sé svo tveim sagt upp til viðbótar. Hann segir að nýja verksmiðjan sé sexfalt afkastameiri og útheimti ekki nema 10 starfsmenn á eina vakt.

„Ef við þurfum fleiri vaktir þurfum við auðvitað að fjölga,“ segir Ragnar Birgisson.