Hlutabréfamarkaðir hækkuðu flestir í Evrópu í dag, annan daginn í röð, en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins á meðan bílaframleiðendur og fjarskiptafyrirtæki (sem hækkað hafa mikið síðustu daga) lækkuðu.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði um 0,2% eftir að hafa þó sveiflast nokkuð fram eftir degi. Þannig hækkaði hún um tíma um 1,9% og lækkaði um 1,4%. Vísitalan hækkaði um 5% í gær.

Credit Suisse leiddi hækkanir fjármálafyrirtækja og hækkaði um 9,1%. Þá hækkuðu félög á borð við Deutsche Bank, Barclays, HBSC og BNP Paribas um 6,5% - 8,5%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,6% en í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 0,1% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,7%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 0,4% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,4%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,6%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,2% en í Osló lækkaði OBX vísitalan um 1,7%.