Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag og voru það helst hrávöruframleiðendur sem leiddu hækkanir. Hækkandi verð á olíu (+3,9), kopar (+1,9%), hrísgrjónum (+2,4%) og hveiti (+2,3%) búist er við frekari hagnaði þeirra fyrirtækja sem starfa í slíkum iðnaði að mati UBS bankans. Bloomberg greinir frá þessu á fréttavef sínum.

Þannig hækkaði til dæmis BHP Billiton, stærsta námufyrirtæki heims á mörkuðum í Ástralíu um 3,7% í dag. Rio Trinto hækkaði um 3,8% en verð á kopar hækkaði um 1,9% á mörkuðum í Bandaríkjunum í gær.

MSCI kyrrahafsvísitalan hækkaði um 1,2% í dag eftir að hafa hækkað um 3,2% í gær og hefur ekki verið hærri í einn mánuð.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 1,5% og í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 1,6%.

Þá hækkuðu markaðir í Singapúr um 1,1% og í Ástralíu hækkaði S&P/ASX 200 vísitalan um 1,9%.

Helsta lækkunin í Asíu varð í Indónesíu þar sem Jakarta vísitalan lækkaði um 4,5% en talið er að seðlabankinn þar muni hækka stýrivexti í dag til að sporna gegn verðbólgu.