Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag og voru það helst bíla- og rafmagnstækjaframleiðendur sem leiddu hækkanir dagsins eftir að jákvæðar tölur af smásölu í Bandaríkjunum voru birtar í gær en þar kom í ljós að sala á raftækjum hefur aukist umfram væntingar.

Margir raftækja og bílaframleiðendur líta á Bandaríkjamarkaða sem sinn stærsta markað og því er von að þetta séu jákvæðar fréttir fyrir þá aðila. Þetta eru aðilar á borð við Honda og Toyota, Samsung og Sony enda hækkuðu öll þessi félög nokkuð í dag.

MSCI Kyrrahafs vísitalan hækkaði um 0,5% en hefur engu að síður lækkað um 6,1% í vikunni sem er mesta lækkun á einni viku frá því í ágúst í fyrra.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,6% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 1%.

Hins vegar lækkaði CSI 300 vísitalan í Kína um 3,4% og voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir þar í landi en mikill uggur er í fjárfestum að sögn Bloomberg fréttaveitunnar vegna hækkandi verðbólgu og búist er við hækkandi stýrivöxtum.