Hlutabréf í Asíu fóru ekki varhluta af hækkunum á bandarískum mörkuðum í gær. Markaðir í Asíu hækkuðu í dag um 2% samkvæmt DJ Asia-Pacific vísitölunni. Hlutabréf í Evrópu byrja daginn á hækkun upp á 1,2%, samkvæmt Euronext 100 vísitölunni.

HSBC bankinn elti bandarísku bankana og hækkunina í London í gær, en bankinn er skráður í Hong Kong og London. Hækkunin í Hong Kong í dag nam 9,8% en hafði verið 12,6% í London í gær, samkvæmt frétt SCMP.

Mitsubishi UFJ Financial Group, stærsti skráði banki Japans, hækkaði um 4,5% í dag og Toyota um 3,6%. Rúmur þriðjungur sölu fyrirtækisins er í Bandaríkjunum og lækkun jens gagnvart dollar hjálpaði í þessu efni, að því er segir í frétt Bloomberg.

Miklar vonir eru bundnar við að áform bandaríska ríkisins um aðstoð við kaup á allt að 1000 milljörðum dala af svokölluðum eitruðum eignum út úr bönkunum verði til að koma efnahagslífinu á hreyfingu á ný. Margir telja að með þessu geti bankarnir hafið lánveitingar á nýjan leik enda verði búið að hreinsa vandræðalán út af reikningum þeirra.