Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag en það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Yfirvöld í Suður Kóreu tilkynntu í morgun um víðamiklar björgunaraðgerðir á fjármálakerfinu þar í landi og að mati viðmælenda Bloomberg hafði það nokkuð jákvæð áhrif á markaði í Asíu almennt.

MSCI Kyrrahafsvísitalan hækkaði um 3,6% í dag en hefur engu að síður lækkað um 43% það sem af er ári sem er versta gengi hennar frá upphafi en vísitalan var stofnuð árið 1987.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 3,6%, í Hong Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 4,6% og í Kína hækkaði CSI 300 vísitalan unm 3,5%.

Í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 2,8%, í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 4,3% og í Suður Kóreu hækkaði Kospi vísitalan um 2,3%.